143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við heyrðum áðan hæstv. forsætisráðherra og aðra stjórnarliða tala um að ráðstafanir á síðasta kjörtímabili í 110%-leiðinni hefðu nýst hátekjufólki og það fært fram sem rökstuðningur fyrir þessari ráðstöfun hér nú. Það voru ekki peningar sem komu úr ríkissjóði, þetta eru peningar úr ríkissjóði. Hér gefst ríkisstjórnarforustunni færi á því að leiðrétta mistökin, að undanskilja allra ríkasta fólk landsins rétti til leiðréttingarinnar. Mörkin eru sett afar hátt, að einungis þeir sem eru með hærri tekjur en 95% þjóðarinnar missi rétt til leiðréttingarinnar.

Þessi breyting sýnir það raunverulega hvort það eru einhver réttlætissjónarmið að baki þessu hjá ríkisstjórnarflokkunum. Ef þetta er svona lítill hluti aðgerðarinnar eins og þeir láta í veðri vaka, því þá ekki að leyfa réttlætinu að ráða í þessu efni? Það fé sem sparast með þessari breytingu nýtist (Forseti hringir.) til þess að fjármagna úrlausn fyrir alla leigjendur og fyrir alla búseturéttarhafa.