143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hryggir mig að sjá að stjórnarmeirihlutinn ætlar að fella þessa tillögu vegna þess að hún er tilraun til að reyna að gera málið betra, til að reyna að gera málið ögn réttlátara. Það sem málið snýst um er að þessi ríkisstjórn hefur ákveðið, ekki að það sé einhver ákveðinn forsendubrestur sem hefur átt sér stað heldur að það séu ákveðnir fjármunir til ráðstöfunar.

Það sem er verið að leggja til er að þeir sem eru með allra hæstu tekjurnar í þessu samfélagi, eiga mestu eignirnar, fái ekki fjármuni úr ríkissjóði í gegnum þetta frumvarp og þannig verði meira eftir til skiptanna fyrir hina. Það er það sem stjórnarmeirihlutinn er hér að hafna. Stjórnarmeirihlutinn er með þessu að ítreka og staðfesta þá fyrirætlan sína að fólk sem á næga fjármuni, nægar eignir, er það efnaðasta í samfélagi okkar, fái fjármuni úr ríkissjóði, af almannafé. Þá er það skýrt. Þá er það vitað. (Forseti hringir.) Þetta er munurinn á gildismati jafnaðarmanna og hægri stjórnarinnar sem er í þessu landi.