143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er með þessari 7. gr. frumvarpsins sem botninn dettur endanlega úr málinu. Hún gerir það að verkum að orð hæstv. forsætisráðherra um að tiltekinn verðbólgu- eða forsendubrestur, hvað þá allur forsendubresturinn, sé leiðréttur verða innstæðulaus því að hér kemur það einkenni málsins fram að þá stendur ekki lengur til að leiðrétta lán miðað við tilteknar forsendur, taka ofan tiltekinn kúf umfram verðbólguþróun, svo sem eins og það sem er umfram viðmiðunarvaxtamörk Seðlabankans, heldur er það fjárhæðin sjálf sem á að skammta það að hve miklu marki öll verðtryggð lán, óháð því hvenær þau voru tekin, verða leiðrétt. Hvort tveggja er í raun og veru sokkið. Þarna er horft fram hjá upplýsingunum sem liggja fyrir um að það eru eingöngu lánin frá árslokum 2004 og inn á mitt ár 2009 og einkum fyrstu íbúðakaup á þeim tíma sem standa í verri stöðu í dag en þau gerðu áður vegna hækkunar fasteignaverðs og launaþróunar borið (Forseti hringir.) saman við neysluverðsvísitölu.

Með þessari grein, með því að samþykkja hana er ríkisstjórnin að játa endanlega uppgjöf sína gagnvart loforðinu um að leiðrétta einhvern tiltekinn forsendubrest.