143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir málefnalega umræðu um þetta mál í þinginu í gærkvöldi. Ég vil segja að okkur greinir auðvitað á og það er enginn feluleikur í því, okkur greinir á um hversu langt á að ganga í álagningu veiðigjalda.

Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, en stofnunin gerði samanburð á þeim grunni sem álagningin byggir á frá árinu 2012 og því hvernig afkoma sjávarútvegsfyrirtækja var almennt árið 2013. Þar kemur í ljós að veruleg minnkun er á framlegð hjá þessum mikilvæga atvinnuvegi okkar um 20–25% á milli ára. Við tökum tillit til þess við afgreiðslu málsins nú og lækkum veiðigjöldin í samræmi við það sem kemur fram í þessum upplýsingum. Ég tel mjög mikilvægt að þessi grein fái að eflast og að við íþyngjum henni ekki um of með veiðigjöldum. Þetta mál verður síðan væntanlega til skoðunar á næsta vetri þar sem við berum vonandi gæfu til að koma þessum mikilvæga málaflokki í farveg sátta til lengri tíma litið.