143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram er verið að hnykkja á og skilgreina enn betur að afsláttur vegna kvótakaupa áður en sérstaka veiðigjaldið var sett á, sem hægt er að fá afslátt út á, sé eingöngu á Íslandsmiðum. Þegar málið var tekið út úr nefndinni vildum við eingöngu hafa þetta inni, á undan íslenskum, en það hefur fallið út þegar málið var prentað og sent út þannig. Ég trúi því og treysti að við bætum því við fyrir 3. umr.

Það er mikilvægt að þetta sé sett svona inn og á raunar ekki að þurfa að hnykkja á því vegna þess að við erum að setja íslensk lög um íslenskar aflaheimildir og það er auðvitað alveg út í hött að menn skuli þá nota kaup á fyrirtækjum eða öðru erlendis til að fá afslátt út á þetta þar. Það kemur óorði á þá góðu hugmynd sem meiri hluti atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili flutti við 3. umr. málsins.