143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um að fella niður almenna og sérstaka veiðigjaldið af Dohrnbankarækju og rækju á miðum við við Snæfellsnes. Ég tel að það liggi fyrir næg gögn um þær tegundir sem styðja að hægt sé að samþykkja að fella niður veiðigjöld af þeim þar sem engin auðlindarenta hefur verið til staðar og afkoman eftir því.

Varðandi þann lið sem við samþykktum áðan um þorskafla í Barentshafi tel ég að það liggi ekki fyrir neinar afkomutölur og kalla ég eftir því hjá ráðuneytinu. Þetta er aðeins pólitísk ákvörðun á ferðinni þarna og tölur hafa sýnt að ýmsar útgerðir hafa verið að skila miklum hagnaði við veiðar í Barentshafi. Hvað varðar kolmunna tel ég heldur ekki vera næg gögn sem styðja það að lækka veiðigjöld af honum um helming. Það er kannski ekki mikil afkoma af veiðunum en í vinnslunni er ágætisafkoma.