143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka nefndinni fyrir mjög gott samstarf um þetta mál og önnur.

Það er mikið álitamál sem við erum að fjalla hér um og snýr að grundvallarreglum í fiskveiðistjórnarkerfinu og er umdeilt. Það er ekki einfalt að finna á því lausn. Atvinnuveganefnd fór þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands að hún skilaði okkur áliti um hvaða leiðir væru færar í þessu gagnvart því að baka ekki íslenska ríkinu bótaskyldu. Upphaflega leiðin, 70/30%-leiðin, var ekki talin baka íslenska ríkinu bótaskyldu.

Við breyttum, eins og fram hefur komið, frumvarpinu í helmingaskipti milli þeirra sem höfðu aflaheimildir og þeirra sem hafa aflað sér veiðireynslu á undanförnum þremur árum. Við teljum málið alls ekki fordæmisgefandi og reyndar vænti ég þess að það eigi ekki eftir að koma upp slíkt dæmi aftur vegna þess að ef við tökum og breytum reglum um tegundir (Forseti hringir.) sem eru í aflamarkskerfinu verðum við að gera það með leyfi.