143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[16:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er tillaga um ákvæði til bráðabirgða í lögunum um að heimilt verði að setja tímabundið forstöðumann Fjölmenningarseturs til 31. desember 2015. Það kann að virka saklaus tillaga en í rauninni er þarna búið að setja upp starf þar sem endurnýja og framlengja á ráðningu um fimm ár.

Gallinn við þessa tillögu er að í athugasemdunum og í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að verið er að undirbúa stofnun nýrrar stofnunar þar sem sameina á þrjú embætti; Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofu og réttindagæslumenn fatlaðra. Það er engin umræða búin að fara fram um þessa sameiningu, engin málefnaleg umræða hefur verið um hvort rétt sé að sameina þetta. Um er að ræða gríðarlega ólíka hópa. Þess vegna skilaði minni hluti velferðarnefndar séráliti og leggst gegn samþykkt frumvarpsins þar sem hann telur þessa breytingu óþarfa.