143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri.

392. mál
[16:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það má auðvitað horfa á þetta mál frá tveimur hliðum. Annars vegar er hér verið að fella niður þá almennu tilkynningarskyldu á erlendum fjárfestingum sem verið hefur í lögum um þær og leggja niður sérstaka nefnd sem haft hefur eftirlit með þeim fjárfestingum og gætt þess að þær væru í samræmi við lög. Það er mikil breyting þannig að nú verður að eingöngu tilkynningarskylda fjárfestinga sem reyna að komast inn í sjávarútveginn eða inn í aðra þá geira sem enn sæta takmörkunum samkvæmt lögum.

Á móti þessari miklu breytingu hefur nefndin eftir sem áður reynt að tryggja stöðu íslenskra stjórnvalda og valdheimildir þeirra til að grípa inn í erlenda fjárfestingu ef hún er bersýnilega mjög óæskileg eða hættuleg landinu, svo sem eins og ef hún stofnaði allsherjarreglu eða almannaöryggi í hættu eða gæti skapað kerfisáhættu til dæmis í fjármálakerfinu. Með því hugarfari hefur nefndin reynt að grípa til gagnráðstafana, ef svo má að orði komast, til að mæta því að tilkynningarskyldan fellur nú niður.

Ég mæli með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingartillögum sem nefndin flytur.