143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fiskeldi.

319. mál
[16:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Eins og fram hefur komið eru miklir hagsmunir í húfi, bæði lífríkis og náttúru. Margt er verið að færa til betri vegar en þó tel ég margt óljóst enn.

Hér eru undir hagsmunir sem varða umhverfi og náttúru til langrar framtíðar, villtu laxastofnana okkar og ég treysti því ekki öðruvísi en að vistkerfisnálgun sé höfð að leiðarljósi að þessir hagsmunir séu tryggðir. Í boðuðu bráðabirgðaákvæði sem kom fram í máli hv. framsögumanns málsins er boðað að slík nálgun verði viðhöfð við heildarendurskoðun þessa málaflokks og ég vænti mikils af þeirri vinnu en treysti mér ekki til að styðja málið eins og það er lagt fram.