143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum.

519. mál
[16:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um mjög mikilvægt mál. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er sammála um að beina því til Alþingis að samþykkt verði að fela utanríkisráðherra að beita sér fyrir gerð sáttmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um verndun friðhelgi einkalífsins í stafrænum miðlum sem feli í sér hvenær og á hvaða forsendum megi safna eða vinna úr stafrænum upplýsingum um einstaklinga.

Við gerum okkur grein fyrir því að unnið er að þessum málum í ráðuneytum og stofnunum en við leggjum áherslu á að Íslendingar séu gerendur á alþjóðavettvangi í þessu mannréttindastarfi.

Nefndin beindi því til stjórnar Alþingis að fá stuðning við að senda fulltrúa úr nefndinni til Þýskalands til að kynna sér það sem þar væri að gerast á vettvangi þýska þingsins eftir að ljóst varð hve umfangsmiklar njósnir voru stundaðar í Þýskalandi og annars staðar á vegum NSA. Það var hv. þm. Pétur H. Blöndal (Forseti hringir.) sem hafði forgöngu um þetta mál og vann ítarlega skýrslu um ferð sína til þýska þingsins. Stjórn þingsins á þakkir skilið fyrir að veita okkur stuðninginn og Pétur H. Blöndal á þakkir skilið fyrir sína miklu vinnu að þessum málum og það frumkvæði sem hann hefur sýnt í þessu mjög svo mikilsverða máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)