143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 226/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

349. mál
[16:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þetta er þriðja svokallaða EES-málið sem við afgreiðum hér í dag, þriðja málið þar sem við erum með þingsályktun að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara til að innleiða í íslenskan rétt tilskipanir eða ákvarðanir EES-nefndar. Við höfum á þessu þingi fjallað um allmargar slíkar ákvarðanir og ég tel að það sé tilefni til þess núna á þessum síðasta degi að fara aðeins stuttlega yfir það hvað er á ferðinni þegar við erum að innleiða EES-reglur með þeim hætti sem við gerum.

Samkvæmt EES-samningnum ber okkur að innleiða í íslenska löggjöf eða íslenskan rétt tilskipanir og reglur sem settar eru af hálfu Evrópusambandsins á gildissviði EES-samningsins. Það eru vissulega heimildir í EES-samningnum fyrir EFTA-ríkin þrjú sem eru aðilar að EES-samningnum, Ísland, Noreg, Liechtenstein, til að fallast ekki á innleiðingu slíkra gerða en það hefur aldrei reynt á slíkt, það hefur aldrei komið til að EFTA-löndin höfnuðu því að innleiða slíkar gerðir enda má búast við því að slík ákvörðun að synja einhverri tilskipun innleiðingar mundi að lokum geta haft í för með sér afleiðingar fyrir EFTA-ríkin, t.d. í því formi að Evrópusambandið beitti einhvers konar viðskiptahömlum inn á hinn sameiginlega markað.

Það er vissulega svo að EFTA-ríkin innleiða iðulega tilskipanir nokkru síðar en Evrópusambandið. Það er að vísu eitt nýlegt dæmi um að við höfum verið undan Evrópusambandinu sem er einsdæmi en iðulega líður nokkur tími. Almenna reglan er sú að EFTA-ríkin eigi að innleiða tilskipanir innan sex mánaða eftir að þær eru innleiddar hjá Evrópusambandinu en oft tekur þetta talsvert lengri tíma og stundum jafnvel einhver ár. Þegar það gerist verður til það sem kallað er innleiðingarhalli. Innleiðingarhalli er mælikvarði á það hlutfall óinnleiddra tilskipana eða gerða hjá EFTA-ríkjunum sem þau ættu með réttu að vera búin að innleiða miðað við þann tímafrest sem gefinn er almennt.

Við höfum alloft rætt það í þessum sal og ýmsir þingmenn látið þau sjónarmið koma fram í umræðu, bæði hér inni og eins í fjölmiðlum, að það líti þannig út að innleiðingar EFTA-tilskipana séu nánast afgreiddar á færibandi og lítið hugsaðar og lítið skoðaðar. Það má segja að það sé bæði rétt og rangt. Auðvitað er það oft þannig að innleiddar eru tilskipanir sem menn hafa kannski lítið tóm haft til að skoða í þaula og litlar forsendur í sjálfu sér til, en í öðrum tilvikum fer fram ítarleg skoðun á efni málsins, bæði af hálfu hv. utanríkismálanefndar og einnig annarra fagnefnda. Á síðasta kjörtímabili eftir að hér voru komnar til fullra framkvæmda sérstakar reglur um þinglega meðferð EES-mála, sem var byrjað að vinna í utanríkismálanefnd undir forustu þáverandi formanns, hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar, og var síðan fullfrágengið á síðasta kjörtímabili, undir minni formennsku í utanríkismálanefnd, voru settar skýrari vinnureglur um það hvernig ætti að fjalla um EES-málin í þinginu og meðal annars tekin upp sú vinnuregla að tilskipanir og gerðir væru sendar frá utanríkismálanefnd til umsagna hinna einstöku fagnefnda, einfaldlega vegna þess að oft er um mjög tæknilega hluti að ræða. Um er að ræða atriði sem eiga eftir að koma í lagafrumvörpum frá viðkomandi fagráðherra og fara þá til viðkomandi fagnefnda til umfjöllunar. Við höfum tekið upp á þessu og ég held að það sé til bóta að fjölga þeim aðkomuleiðum sem þingið hefur af þessum gerðum.

Spurningin er hins vegar hvort nóg sé að gert í þessu og hvort við erum nægilega vakandi fyrir því að hafa áhrif á EES-samþykktir og gerðir á fyrri stigum. Það er álitamál, sem hefur einnig komið til umfjöllunar á vettvangi utanríkismálanefndar, bæði á þessu kjörtímabili og hinu síðasta. Á 141. þingi í febrúar 2013 samþykkti Alþingi þingsályktun — það var þingsályktunartillaga þar sem 1. flutningsmaður var hæstv. núverandi forseti Alþingis, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem var fjallað um í utanríkismálanefnd sem lagði síðan til að tillagan yrði samþykkt; hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.“

Í greinargerð með þessari þingsályktun var vísað bæði til framkvæmdarvaldsins en líka til löggjafarvaldsins, þ.e. að það væri bæði mikilvægt að efla þátttöku framkvæmdarvaldsins, embættismanna, þar sem þess væri kostur en líka stjórnmálamanna. Og í afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 var sett viðbótarfjármagn inn til utanríkisráðuneytisins til að utanríkisráðuneytið gæti sinnt betur þessum þætti í samræmi við þessa þingsályktun.

Hins vegar var ekkert fjármagn til viðbótar sett til Alþingis til að Alþingi gæti rækt sinn hluta þessa máls. Það þykir mér miður. Ég vakti athygli á þessu í umræðum um fjárlagafrumvarpið og mér finnst miður að ekki skyldi hafa verið tekið á því þannig að möguleikar Alþingis væru tryggðir í þessu samhengi.

Nú hafa Evrópumálin almennt verið til umræðu á þessu þingi eins og kunnugt er. Nú á útmánuðum kynnti ríkisstjórnin áherslu á framkvæmd Evrópustefnu og þar er meðal annars lagt upp með það og tekið fram að EES-samningurinn hafi verið burðarás samstarfs og samskipta Íslands við ESB og aðildarríki þess og hann eigi að vera það áfram. Lögð er áhersla á að treysta samstarfið innan EES og nýta betur alla þá möguleika sem við höfum til að hafa áhrif á lög og reglur EES-samstarfsins.

Ég tek þetta upp hér í tengslum við það mál sem hér er til umræðu. Þetta er í raun síðasta EES-málið sem við erum með á þessu þingi. Ég hef stundum vakið máls á þessu áður í umræðu um EES-málin. Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu eina ferðina enn, að við þurfum, ef við ætlum að vera virk í EES-samstarfinu, ef við ætlum að nýta okkur þá kosti sem EES-samstarfið gefur okkur til að hafa áhrif á lög og reglur sem við síðan innleiðum, að leggja í það bæði tíma og fjármagn og á það skortir. En Evrópustefna ríkisstjórnarinnar lýtur auðvitað fyrst og fremst að framkvæmdarvaldinu en að sjálfsögðu þarf þingið að vera meðvitað um þetta.

Það væri hægt að halda nokkuð langa tölu um þetta mál og um það sem oft hefur komið upp í tengslum við umræðuna um EES-samninginn og varðar fullveldið, að hve miklu leyti við erum að framselja eða deila fullveldi með öðrum. Við erum auðvitað að gera það í alþjóðlegu samstarfi í ríkum mæli, misríkum mæli að sjálfsögðu, en bæði deilum við fullveldinu okkar með öðrum í tengslum við samstarf á vettvangi alþjóðastofnana og ýmissa alþjóðasamninga en um leið fáum við hlutdeild í fullveldi ýmissa annarra.

Þetta finnst mér mikilvægt að hafa sagt í þessari umræðu núna. Ég ætla ekki að lengja þennan dag neitt sérstaklega en mér fannst í raun nauðsynlegt að þessi sjónarmið kæmu fram hér við lok þessa þings eftir að hafa afgreitt fjölmargar EES-tilskipanir og reglur með þeim hætti sem við erum að gera nú.