143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

ráðstafanir gegn málverkafölsunum.

266. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir gegn málverkafölsunum. Flutningsmenn tillögunnar eru hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason.

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um málið sem er um að settur verði á laggirnar starfshópur sem skipaður verði fulltrúum ýmissa aðila til að gera tillögur til ráðherra að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins.

Markmið þingsályktunartillögunnar er annars vegar að vernda íslenska menningararfleifð gegn málverkafölsunum, og þá er lögð áhersla á að embætti sérstaks saksóknara komi að þeirri vinnu þar sem falsanir falla undir efnahagsbrot, og hins vegar að skýra hlutverk og frumkvæðisskyldu stjórnvalda gangvart því að varðveita menningararfinn.

Þær umsagnir sem bárust um tillöguna voru allar jákvæðar, í þeim var tekið heils hugar undir mikilvægi málsins og leggur nefndin því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit ritar sú sem hér stendur sem er framsögumaður málsins, Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.