143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Örstutt um þetta mikla og góða mál sem hér er að fá farsælan endi, um að fella niður virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Þetta er alveg hiklaust þjóðþrifamál, mun spara og sparar mikið hjá þeim sem þegar hafa gert þetta. Ég þekki til austur í Neskaupstað þaðan sem ég fæ reglulega upplýsingar frá vinum mínum um húshitunarkostnaðinn og það er sannarlega gleðilegt að segja frá því að með uppsetningu á varmadælu í einu húsi hefur húshitunarkostnaður viðkomandi aðila lækkað um 60%.

Með því að fella niður virðisaukaskattinn gerum við þetta jafnfætis lögaðilum sem geta sett þetta upp og fengið þann virðisaukaskatt sem útskatt á móti innskatti en almenningur á ekki kost á því og þess vegna er þetta fellt niður hér. Dælur verða þá væntanlega ódýrari sem þessu nemur, lækka um að minnsta kosti 20%, ef ekki meir. Það er gaman að segja frá því að vegna þess að menn vita að þetta er að koma fram og eru að bíða eftir samþykkt þessa frumvarps í dag voru í síðustu viku auglýsingar í Dagskránni, auglýsingamiðli á Austurlandi, frá að mig minnir þremur söluaðilum með varmadælur. Þeir voru að auglýsa þær á Austurlandi og efndu til kynningarfunda um kosti og galla. Við sjáum að þetta hefur þegar jákvæð áhrif, þau áhrif hjá þeim sem setja þetta upp, eins og ég sagði áðan, til lækkunar húshitunarkostnaðar. Þar að auki er af þessu þjóðhagslegur sparnaður, kílóvattstundir sparast og þær eru þá til í annað og þarf ekki að virkja eins mikið í staðinn eða það er hægt að selja þær öðrum aðilum til atvinnuuppbyggingar eða hvers sem er. Það er mjög merkilegt.

Það er líka merkilegt að segja frá því að austur í Neskaupstað berjast menn fyrir því að menn setji upp varmadælur og nýti hitann úr sjónum til að hita upp opinberar byggingar. Þeir taka dæmi af sveitarfélagi í Noregi sem hefur gert þetta og sparað með því mikla fjármuni.

Þetta er líka mótvægisaðgerð vegna síhækkandi húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og þar að auki er eitt í viðbót um hinn þjóðhagslega sparnað. Upphæð til niðurgreiðslu húshitunar lækkar sem þessu nemur eða ég mundi frekar vilja segja að sama upphæð verður notuð og kemur þá meira til þeirra sem ekki setja þetta upp.

Um leið og ég þakka nefndinni og hv. framsögumanni og formanni nefndarinnar fyrir að bera málið í gegnum nefndina og hingað verð ég auðvitað í lokin að minnast á að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, flutti þetta mál tvisvar sinnum. Ég var meðflutningsmaður og þegar Einar K. Guðfinnsson var valinn forseti Alþingis og flytur ekki svona frumvörp má segja að ég hafi fengið það í arf og flutt það sem 1. flutningsmaður. 13 aðrir þingmenn eru á því.

Ég vildi aðeins láta koma fram þakklæti fyrir að þetta sé að koma til atkvæðagreiðslu og benda á þau þjóðhagslegu áhrif sem þetta hefur til sparnaðar.