143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

tollalög og vörugjald.

179. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða mál sem lætur kannski lítið yfir sér en skiptir máli fyrir fjölda fólks. Heiti málsins eins og það var kynnt af hæstv. forseta og liggur fyrir í dagskrá er ekki alveg réttnefni. Það varðar ekki bara sojamjólk heldur miklu fleiri staðgengdarvörur kúamjólkur.

Málið er lagt fram af okkur þingmönnum Bjartrar framtíðar og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir er 1. flutningsmaður þess. Það er um að fella niður tolla og vörugjöld af staðgengdarvörum mjólkur, þ.e. vörum sem koma í stað mjólkur. Fjölmargir Íslendingar geta ekki eða vilja ekki neyta kúamjólkur og til að sá hópur njóti jafnræðis á við þá sem drekka mjólk fellst nefndin á að það sé skynsamlegt að fella niður tolla og vörugjöld af þessum staðgengdarvörum.

Þetta er í sjálfu sér lítið skref. Ekki var nokkur mótstaða við þetta mál enda þykir það sjálfsagt. Að auki er sjálfsagt að geta þess að það eru ekki tollar á innflutningi á þessum vörum frá Evrópusambandsríkjum en það hafa verið tollar á innflutningi á þessum vörum frá Bandaríkjunum. Þeir innflytjendur sem flytja þessar vörur inn þaðan munu nú vonandi lækka þær í verði. Þessar vörur eru sojamjólk, hrísmjólk, hnetumjólk, möndlumjólk og haframjólk.

Burt séð frá nefndarálitinu, sem er jákvætt í garð þessa máls og mælir að sjálfsögðu með því að það verði samþykkt, finnst mér rétt að geta þess að það er skoðun okkar í Bjartri framtíð að við eigum í miklu meira mæli að fella niður tolla og vörugjöld á vörum sem eru ekki í samkeppni við innlenda framleiðslu. Það er ærið verkefni sem mundi skila sér inn í verðlag og í bættum hag neytenda. Svo er það auðvitað líka skoðun okkar að það væri ekki slæmt að auka samkeppni innlendrar landbúnaðarframleiðslu við erlenda framleiðslu. Það er samt allt önnur saga og er ekki fjallað um hana í þessu máli sérstaklega.

Við í Bjartri framtíð fögnum því að efnahags- og viðskiptanefnd hefur gefið þessu jákvæða umsögn. Þetta er gott mál fyrir þá Íslendinga sem drekka ekki mjólk.