143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Endurnýjun á húsakosti Landspítalans er brýnt hagsmunamál fyrir þjóðina alla. Við heimsóttum í vetur, þingflokkur Samfylkingarinnar, spítalann og fengum að skoða jafnt allt það besta og allt það sem verst er á sig komið af húsakosti spítalans. Það er augljóst að brýn þörf er á endurnýjun þar og að búa spítalanum þannig aðstæður að hann geti sinnt hlutverki sínu með sóma.

Ég vil þakka velferðarnefnd fyrir að afgreiða þessa tillögu og formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir umsjónina með málinu. Það skiptir mjög miklu máli að það hafi tekist að fá tillöguna samþykkta. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir eljusemi hans í málflutningnum fyrir endurnýjun húsakosts spítalans og frumkvæðinu sem hann tók í þessu máli og öðrum flutningsmönnum. Það er mjög mikilvægt að við sameinumst um það að búa Landspítalanum góða umgjörð og það skiptir miklu máli að hefjast sem fyrst handa við það verkefni.