143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:20]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Umræða um byggingu eða endurnýjun Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur staðið yfir í fjölmörg ár. Við höfum verið sammála um það að húsakostur er ekki eins og best verður á kosið. Við höfum verið sammála um að það hafi þurft að endurnýja, breyta og bæta.

Síðasta ríkisstjórn lagði hins vegar í þá vegferð að ráðast í byggingu nýs Landspítala. Það var metið í fjárlögum að kostnaður ríkissjóðs mundi hlaupa á 75–80 milljörðum og á það bent að til að fjármagna bygginguna þyrfti að hækka skatta, selja eignir eða finna einhvern veginn fjármagn til þess að breyta. Ég hef verið andvígur þeirri hugmynd að ráðast í byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, var einn aðili, eða við vorum kannski tveir, á sínum tíma sem greiddi atkvæði gegn því að farið yrði í þá vegferð.

Velferðarnefnd hefur stigið að mínu mati tvö mjög stór jákvæð skref. Annars vegar er heiti tillögu til þingsályktunar breytt. Hún bar heitið Tillaga til þingsályktunar um byggingu nýs Landspítala, en nú verður fyrirsögn tillögunnar: Tillaga til þingsályktunar um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala. Þetta þýðir að kanna á allar leiðir, hvað sé hagkvæmast og best þannig að við getum tryggt öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna í landinu.

Það er annað risastórt atriði sem skiptir máli fyrir okkur sem höfum áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og það er að framkvæmdir munu ekki hefjast fyrr en fjármögnun hefur verið tryggð. Þetta er algert lykilatriði. Á næstu árum munu fara gríðarlega miklir fjármunir í aðbúnað sjúklinga á sjúkrahúsinu og ég er þeirrar skoðunar að styrkja þurfi aðbúnað heilbrigðisstétta sjúkrahússins með einum eða öðrum hætti. Ég hef verið andvígur þeirri einu leið sem ávallt var krafist að yrði farin. Ég hef staðið fast á því og ég stend fast á því. Ef menn eru til í að setja sjúklingana í forgang, heilbrigðisstéttirnar í forgang og reyna svo með einum eða öðrum hætti að endurnýja og byggja upp þegar fjármagn fæst þá mun ég styðja það heils hugar. Ég er ánægður með þau skref sem velferðarnefnd hefur stigið í þeim efnum.