143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki verið að gefa í skyn að þeir sem vilja fara í uppbyggingu á Landspítala setji sjúklingana ekki í forgang. Það er einmitt stóra ástæðan fyrir því að við teljum mikilvægt að ráðast í þessa byggingu sem allra fyrst. Eins og fram hefur komið, meðal annars í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, tekur fjölmörg ár að byggja spítalann. Hann verður ekki til á einni nóttu og að byggingartíma loknum verður aldeilis orðið tímabært að slíkur spítali rísi.

Við skulum ekki tala á þá leið að menn upphefji sig eins og mér fannst hv. þingmaður gera með því að segja að þeir sem vilji fara út í þessar byggingar séu á einhvern hátt að draga úr áherslunni á sjúklingana. Það er ekki þannig. Bygging nýs Landspítala er heilbrigðispólitík. Hún snýst um að tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar kemur að heilbrigðismálum í heiminum. Það er það sem þessi bygging snýst um. Við skulum ekki ræða þetta á þessum nótum. Ég bið um að við ræðum af virðingu hvert við annað.

Ég hef verið ósammála hv. þingmanni og rökum hans í þessu hingað til en ég vona að við náum saman og náum lendingu í gegnum þessa tillögu. Þá skulum við fara betur af stað en svo að við tölum svona hvert við annað.