143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:30]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu mína hefði hún heyrt að við erum sammála um að það þurfi að endurnýja og byggja upp, við erum sammála um það. En ég krefst þess eins og aðrir þingmenn að orð mín séu ekki mistúlkuð. (Gripið fram í.) Ég krefst þess líka að ekki sé gjammað fram í meðan ég held ræðu mína.

Ég fór yfir álit fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og það er alveg satt að þeir sem lögðu til að lagt yrði af stað í hátæknisjúkrahús töldu að það yrði um 3 milljarða hagræðing. Ef ég man rétt þá var það einmitt í áliti fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem þessi hagræðing, þessar fullyrðingar um 3 milljarða hagræðingu, hrundi, það var einfaldlega þannig. Það er það sem ég er að benda á.

Auðvitað hagnast sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn á endurbótum og uppbyggingu. Það er það sem ég hef alltaf verið að segja. Ég hef bara ekki verið reiðubúinn að fara þá einu leið sem átti að fara á síðasta kjörtímabili í byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar. Þegar menn fullyrða að þetta kosti á bilinu 75–80 milljarða skulu menn hafa í huga að bygging Hörpu átti að kosta 6 milljarða en endaði í 28–30 milljörðum. Ég held að ég sé frekar að draga úr en hitt.

Þetta er ekkert gamanmál en ég ítreka það sem ég sagði. Mér líst vel á þá niðurstöðu sem velferðarnefnd hefur komist að. Mér líst vel á að það er sátt og samlyndi um þá vegferð og hana ætla ég mér að styðja.