143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nota þennan andsvarstíma fyrst og fremst til að árétta sjónarmið sem ég hef áður sett fram hér í ræðustól, í fyrsta lagi hve mikilvægt það er að endurnýja húsakost Landspítalans, en í annan stað tel ég mjög mikilvægt að það verði ekki gert með einkaframkvæmd. Hv. þingmaður sagði að mikilvægt væri að skoða allar leiðir. Það er mikið rétt að menn eiga að hafa huga sinn opinn, en staðreyndin er sú að einkaframkvæmd er dýrasti kosturinn sem menn geta valið. Það er margsannað mál. Menn telja sig iðulega vera að komast auðveldar frá málinu með þeim hætti að hefja framkvæmdir í einkaframkvæmd, en þegar upp er staðið er það dýrara fyrir skattborgarann. Ég vil að það komi skýrt fram að ég væri mjög andvígur því að nýr Landspítali risi í einkaframkvæmd.