143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010.

Fjölmargir aðilar komu á fund nefndarinnar og fjölmargar umsagnir bárust sem ég ætla mér ekki að telja hér upp.

Aðaláhersla frumvarpsins varðar breytingu á bótareglu laganna en einnig er lögð til breyting á ýmsum öðrum ákvæðum laganna sem talin er þörf á í ljósi reynslunnar.

Hvað varðar breytingu á bótaákvæði 51. gr. laganna er tilgangurinn sá, samkvæmt athugasemdum frumvarpsins, að gera ákvæðið skýrara um það hvenær bótaréttur til handa fasteignareiganda, og eftir atvikum öðrum rétthöfum, stofnast vegna gildistöku eða framkvæmdar skipulagsáætlunar. Einnig er tilgangur tillögunnar að færa orðalag ákvæðisins nær því að lýsa tilvikum sem eru eða ætla má samkvæmt fyrirliggjandi réttarframkvæmd að séu bótaskyld á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Hliðsjón er einnig höfð af sambærilegum bótareglum í eldri skipulagslögum, ekki síst lögum frá 1964. Eins og rakið er í athugasemdum við frumvarpið má færa fyrir því rök að í þessu felist ekki veigamikil efnisbreyting á þeim bótarétti sem þegar er lögfestur, heldur fremur skýring á inntaki hans.

Umsagnaraðilar lýstu áhyggjum af bótaákvæðinu og bentu á ýmsa mögulega vankanta. Þrátt fyrir gagnrýni á bótaregluna er ljóst að dómaframkvæmd hefur svarað ýmsum atriðum um beitingu hennar, þar á meðal hvenær skerðing telst veruleg, hvenær orsakasamband og sennileg afleiðing er fyrir hendi og hvaða kröfur eru gerðar til þess að tjónþoli sýni fram á tjón sitt og ráðstafanir til þess að draga úr tjóni. Nefndin áréttar að lagabreytingunni er ekki ætlað að hafa áhrif á þá framkvæmd.

Bent var á að „sérstök“ breyting á verðmæti eignar sem skipulagsaðgerð kann að hafa í för með sér samkvæmt a-lið 21. gr. frumvarpsins gæti falið í sér að fasteignareigandi, sem ekki hefur orðið fyrir neinu tjóni þar sem verðmæti fasteignar hans hefur hækkað vegna skipulagsbreytinga til jafns við þá skerðingu sem varð á fasteigninni þegar breyttu skipulagi var hrundið í framkvæmd, geti krafið sveitarfélag um bætur af þeim sökum. Engu breytir þótt aðrir fasteignareigendur hafi einnig notið verðmætaaukningarinnar. Tekið var dæmi um að með sömu rökum mætti halda því fram að sanngjarnt væri, og í samræmi við jafnræði fasteignareigenda, að fasteignareigandi A gæti krafið sveitarfélag um bætur þar sem fasteign fasteignareiganda B hefði hækkað í verði vegna skipulagsákvörðunar en ekki fasteign A. Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til að orðalag 1. málsliðar nýrrar 51. gr. a verði óbreytt frá 2. mgr. 51. gr. gildandi laga.

Þá var bent á að framkvæmdatími þróunaráætlunar samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laganna er tímabundinn. Ekki er ljóst samkvæmt frumvarpinu hvort fasteignareigandi getur byggt einhvern rétt á þróunaráætlun eftir að hún er fallin úr gildi og framkvæmdir ekki hafnar ef ekki er vilji til þess að festa fyrri áætlanir í sessi í því deiliskipulagi sem tekur við að liðnum framkvæmdatíma þróunaráætlunarinnar þar sem ekki er tekin afstaða til þess hvort sveitarfélög hafa ótvíræðar heimildir til þess að ákveða að deiliskipulagsáætlanir hafi tiltekinn gildistíma. Þetta álitaefni hefur augljóslega mikla þýðingu um inntak og tímalengd hugsanlegrar skaðabótaskyldu sveitarfélaga vegna breytinga á skipulagi. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu til að koma til móts við þau.

Í b-lið 22. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 4. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Um er að ræða ákvæði um breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins og málsmeðferð við slíkar breytingar. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að sveitarfélag og Skipulagsstofnun gæti greint á um hvað teldist óveruleg breyting á svæðisskipulagi og vaknar þá spurning um hvernig bregðast ætti við í þeirri stöðu. Því leggur nefndin til að við ákvæðið bætist nýr málsliður sem eyðir þessum vafa.

Ég ætla ekki lesa upp þær breytingar sem ég hef nú reifað stuttlega, en langar að fjalla örstutt um breytingartillögu við frumvarp sem kom fram vegna ábendinga frá ráðuneyti eftir að nefndarálitið var samþykkt út úr nefnd. Sá sem hér stendur, Höskuldur Þórhallsson, flytur þessa breytingartillögu sem er þannig:

„Á eftir 6. gr. komi tvær nýjar greinar sem orðist svo:

a. (7. gr.)

Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 17. gr. laganna:

a. Á eftir orðunum „kostnaði við gerð“ í 1. málsl. kemur: tillögu að landsskipulagsstefnu.

b. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Greiðslur úr sjóðnum til Skipulagsstofnunar vegna gerðar tillögu að landsskipulagsstefnu eru háðar samþykki ráðherra.“

Svo er það kannski aðalatriðið, sem ég ætla að fara aðeins yfir. Gerð er breyting á 1. tölulið 18. gr. laganna:

„1. tölul. 18. gr. laganna orðast svo: Kostnaður við gerð landsskipulagsstefnu greiðist til helminga af ríkissjóði og Skipulagssjóði.“

Skipulagsgjald á sér langa sögu í íslenskri skipulagslöggjöf. Gjald sem nemur 3% af hverri nýbyggingu var innleitt með breytingu á lögum um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1938. Var því ætlað að standast þann kostnað sem ríkissjóður bæri af stjórn skipulagsmála, mannahaldi, skrifstofukostnaði, ferðalögum o.fl., en á þessum tíma var öll skipulagsgerð á hendi ríkisins.

Skipulagslög nr. 19/1964 leystu af hólmi lög um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Í þeim voru áfram ákvæði um innheimtu slíks gjalds sem næmi allt að 3% af brunamati nýbyggingar sem reist væri á skipulagsskyldum stað í því skyni að standa straum af kostnaði ríkissjóðs af framkvæmd skipulagsmála samkvæmt lögum þessum.

Virðulegi forseti. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að kostnaður við gerð landsskipulagsstefnu greiðist úr ríkissjóði. Nú er komin nokkur reynsla á það hvað vinna við gerð landsskipulagsstefnu felur í sér en ráðherra fól Skipulagsstofnun í fyrsta sinn að vinna að gerð landsskipulagsstefnu síðla árs 2011. Skilaði stofnunin tillögu sinni til ráðherra í árslok 2012.

Virðulegi forseti. Þar sem ég mæli fyrir breytingartillögu sem ekki fylgir nefndarálit verð ég, því miður, ég geri mér grein fyrir tímanum, að koma með skýringar við breytingartillöguna. Ég veit að þingheimur skilur það þó að flestir vilji hér klára sem allra fyrst.

Með hliðsjón af tilgangi skipulagsgjalds eins og honum hefur verið lýst í löggjöf frá því að gjaldið var innleitt árið 1938 og með hliðsjón af tilgangi landsskipulagsstefnu og umfangi og eðli þeirrar vinnu sem gerð hennar felur í sér er talið eðlilegt að um kostun þess verkefnis fari eins og um endurskoðun aðal- og svæðisskipulags, þ.e. að helmingur kostnaðar við verkefnið greiðist af skipulagsgjaldi. Í ljósi þess sem að framan er rakið er talið eðlilegt að búa þannig um hnútana með lagaumgjörð, eða þeirri breytingartillögu sem hér er, að sama fyrirkomulag gildi varðandi kostnað við gerð landsskipulagsstefnu og gerð aðal- og svæðisskipulagsáætlana samanber 2. og 3. tölulið 18. gr. núgildandi skipulagslaga, þ.e. að skipulagsgjald sem renni í Skipulagssjóð standi straum af helmingi kostnaðar stofnunarinnar vegna vinnu við gerð landsskipulagsstefnu. Til þess að Skipulagsstofnun geti rækt lagaskyldu sína er varðar gerð landsskipulagsstefnu er nauðsynlegt að frumvarpið og breytingartillagan verði að lögum. Samkvæmt h-lið 4. gr. skipulagslaga annast Skipulagsstofnun umsýslu Skipulagssjóðs. Þykir því eðlilegt að greiðslur úr sjóðnum til Skipulagsstofnunar vegna gerðar tillögu að landsskipulagsstefnu séu háðar samþykki ráðherra.

Ég vil þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir ánægjulegt samstarf og góða samvinnu við gerð þessa frumvarps.

Auk þess sem hér stendur skrifa undir álitið án fyrirvara Katrín Júlíusdóttir, Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Katrín Jakobsdóttir, Brynhildur S. Björnsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Ég vonast, virðulegi forseti, til þess að þetta verði að lögum hér á eftir.