143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Breytingartillagan sem hér um ræðir gengur út á það að hækka barnabætur þannig að sú upphæð sem Alþingi samþykkti í fjárlögum að verja til barnabóta gangi að fullu til barnafjölskyldna í landinu. Ef viðmiðum verður ekki breytt verður afgangur af bótunum sem situr þá eftir í ríkissjóði.

Öll viðmið vegna barnabóta voru sett haustið 2012, bæði launaviðmið og upphæðir vegna barna. Barnabætur skerðast við 200 þús. kr. á mánuði, þ.e. 400 þús. kr. samanlagt fyrir báða foreldra. Óskertar barnabætur renna því til þeirra allra tekjulægstu sem fá ekki þann skattafslátt sem boðið er upp á með frumvarpinu að fullu sem við greiðum nú atkvæði um.

Barnafjölskyldur eru í mestum greiðsluvanda samkvæmt greiningu. Fátækum börnum fjölgar á Íslandi. Þetta er réttlætismál og ég hvet hv. þingmenn til að greiða atkvæði með þessari tillögu.