143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það veldur mér vonbrigðum að horfa á litaspjaldið. Á sama tíma og hv. stjórnarþingmenn samþykkja að vel stætt fólk fái skattafslátt af sparnaði sem fátækt fólk getur ekki nýtt sér með sama hætti fella þeir hækkun á barnabótum sem miðar aðeins að því að samþykkt heildarupphæð í fjárlögum gangi til barnafjölskyldna en skilji ekki eftir afgang í lok árs í ríkissjóði.

Hér kom breytingartillaga á milli umræðna frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar þegar við ræddum um fjárlagafrumvarpið, um að skera niður barnabætur um 300 millj. kr. Hún var dregin til baka og henni var mótmælt bæði í þingsal og utan. Með því að samþykkja ekki þessa breytingartillögu mína mun vilji meiri hluta fjárlaganefndar koma fram og niðurskurður verður á barnabótum, nú þegar við erum að samþykkja milljarðatugi til efnameiri fjölskyldna í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)