143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Breytingartillaga meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem kom fyrirvaralaust inn í málið á sama fundi og það var tekið út fyrir 2. umr. jók verulega umfang þessa máls. Sú breyting var eingöngu í þágu fjölskyldna með mánaðartekjur upp á 800 þús. kr. og upp í rúma 1 millj. kr. þannig að það jók á það ójafnræði sem mismunandi launatekjur búa sjálfkrafa til í kerfi af þessu tagi. Skattaleg meðgjöf vex eftir því sem launin hækka. Og þetta jók auðvitað umtalsvert fórnarkostnað ríkis og sveitarfélaga sem núna liggur á bilinu 50–60 milljarðar samtals hjá ríkinu og 25–28 milljarðar hjá sveitarfélögunum.

Alþingi er að taka að sér að ráðstafa með þessum hætti 25–28 milljörðum af framtíðartekjum sveitarfélaganna í landinu án þess að við þau hafi verið rætt svo heitið geti. Það er athyglisvert.

Í þessu frumvarpi er vissulega sú jákvæða hugsun að aðstoða fólk við að mynda höfuðstól til íbúðarkaupa í framtíðinni með skattalegum stuðningi, en ágallar þess og kostnaðurinn við það (Forseti hringir.) vega svo miklu þyngra að það er engin leið að styðja það.