143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu.

335. mál
[19:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. velferðarnefnd og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að fjalla um málið. Ég vona að þessi tillaga verði samþykkt og að í kjölfarið hefjist vinna við að breyta vímuefnastefnu þannig að hún hafi mannúð og lausnir að leiðarljósi en ekki einungis refsingar. Þetta hefur verið svolítið umdeilt mál en ég er mjög þakklátur fyrir þær umræður sem hafa verið um það og fyrir jákvæð viðbrögð, sérstaklega frá hæstv. heilbrigðisráðherra en líka fyrir þá mjög gagnlegu og upplýsandi umræðu sem hefur átt sér stað í hv. velferðarnefnd. Þessi tillaga mun koma af stað starfi til að endurskoða stefnuna, er í sjálfu sér ekki bindandi, en ég hef fulla trú á því að í þeirri vinnu verði komist að réttri niðurstöðu.