143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[19:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er bent á að húsakostur Landspítalans sé óviðunandi og mikilvægt sé að ráðast þar í úrbætur. Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn hafa unnið að því undanfarið ár, fyrst með viðbótarframlögum til að taka á brýnasta vandanum en að undanförnu hefur svo hæstv. heilbrigðisráðherra unnið að því með mér og hæstv. fjármálaráðherra að gera áætlun um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss.

Æskilegt er að eiga sem best samstarf við stjórnarandstöðuna hvað þetta mál varðar og gæta þess í framhaldi. Ég vil geta þess sérstaklega að hv. þm. Kristján Möller, 1. flutningsmaður þessarar tillögu, hefur þegar haft frumkvæði að því að ræða við mig á mjög uppbyggilegan hátt um hvernig haga megi slíku samstarfi.

Virðulegur forseti. Sú tillaga sem verið er að greiða atkvæði um er í samræmi við og endurómar stefnu ríkisstjórnarinnar og því segi ég já.