143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[19:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég held að hér séu mjög merkileg tímamót. Með yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra, út af samþykkt þessarar tillögu um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala, erum við að marka okkur skref. Ég er ákaflega ánægður með þá yfirlýsingu sem hér var sett fram og tel hiklaust að verið sé að stíga skref í þá átt að mynda þjóðarsátt og allsherjarsátt á Alþingi, meðal allra þingflokka, um brýnasta hagsmunamál í heilbrigðismálum sem við stöndum frammi fyrir.

Um leið og ég þakka hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni fyrir þessa yfirlýsingu, fyrir að stíga þetta skref, óska ég þjóðinni til hamingju með þann áfanga sem næst með samþykkt í þessari tillögu sem kemur aðeins breytt úr velferðarnefnd.