143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[19:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Tímamótin í þessu máli urðu við fjárlagagerð ársins 2014 þegar Alþingi samþykkti fyrstu fjárframlögin beint inn á fjárlögin til hönnunar á sjúkrahúsi, það skulum við hafa á hreinu.

Landspítalinn er þjóðarsjúkrahús, hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar við landsmenn. Við skulum líka hafa í huga að ríkissjóður, eins og hann er staddur í dag, hefur ekki burði til frekari skuldsetningar og því þarf nauðsynlega að ræða aðra leið til fjármögnunar byggingar sem við erum öll sammála um að þurfi að rísa.

Það er tímabært að við ræðum opinskátt og án upphrópana hvort ekki sé skynsamlegt að losa um eitthvað af þeim eignum sem ríkissjóður á og nýta þá fjármuni til uppbyggingar þjóðarsjúkrahússins. Þannig mundum við forgangsraða í þágu landsmanna, tvímælalaust, og skapa tækifæri til framtíðar og möguleika á að fjárfesta í innviðum og þjónustu. Þannig ættum við að geta náð sameiginlega þeim markmiðum sem við öll höfum og séð langþráðan draum rætast um öflugt þjóðarsjúkrahús allra Íslendinga.