143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[19:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð fögnum því að þessi þingsályktunartillaga hafi verið samþykkt. Það liggur ljóst fyrir að fátt er meira aðkallandi í velferðarmálum þjóðarinnar, þegar kemur að uppbyggingu grunnþjónustunnar, en að endurnýja húsakost Landspítalans. Húsakostur Landspítalans er einfaldlega úreltur og er orðinn það fyrir löngu.

Nauðsynlegt viðhald á þeim húsakosti sem nú er er mjög fjárfrekt verkefni. Það yrði hins vegar sorglegt, ég vil bara segja það hér, ef þetta mikilvæga verkefni strandar á fjármögnun á sama tíma og við erum um það bil að fara að ákveða, með meiri hluta í þessum þingsal, að verja mjög miklum fjárhæðum til aðgerða sem eru mjög ómarkvissar að okkar mati.

Við munum kannski syrgja þá peninga ef við komumst að (Forseti hringir.) þeirri niðurstöðu að við getum ekki farið í uppbyggingu á Landspítalanum vegna þess að við höfum ekki fé til þess.