143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil mæla hér fyrir breytingartillögum sem eru á þskj. 1189 og ég flyt nú við 3. umr. málsins. Það má líta á það sem þrautavaratillögu af okkar hálfu til þess að bæta úr verstu ágöllum málsins og taka inn í það, þessa höfuðstólslækkun fasteignaveðlána, þá hópa sem að óbreyttu og eftir afgreiðslu málsins við 2. umr. yrðu alveg skildir eftir utan aðgerðarinnar. Tillögurnar ganga að sumu leyti í svipaða átt og breytingartillögur sem hv. þm. Árni Páll Árnason flutti við 2. umr., en víkja frá þeim í nokkrum öðrum atriðum.

Í fyrsta lagi og í 1. tölulið er opnað fyrir það að félög eins og húsnæðissamvinnufélög, búseturéttarfélög eða önnur slík félög sem stofnuð eru með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga fái sambærilega niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána og einstaklingar fá á sínum íbúðum eða húsum. Til þess standa öll efnisleg rök, einkum og sér í lagi í þeim tilvikum þar sem lánin eru færð á viðkomandi íbúð eins og í búseturéttarfyrirkomulaginu þar sem búseturéttarhafinn greiðir af lánunum sem sérstaklega tilheyra íbúðinni, þar sem búseturéttarhafinn hefur verið gjaldgengur til vaxtabóta vegna alls lánakostnaðar sem á íbúðinni hvílir og þar sem sjálfsagt þótti þegar greiðslujöfnun var tekin upp að hún gengi út yfir þetta búsetuform eins og önnur.

Þegar skoðaður er lagalegur munur á stöðu búseturéttarhafa í þessu samhengi verður ekki séð að hann sé nokkur og hafi verið fram að þessu. Þetta er í fyrsta sinn, ef af verður, sem þetta húsnæðisform verður meðhöndlað öðruvísi en þeir sem hafa valið að kaupa sína eigin íbúð utan slíks skipulegs samvinnuforms um húsnæði. Það er afar hæpið að það standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar eða meðalhófsreglu að mismuna á þann hátt sem gert verður ef þessi hópur verður ekki tekinn með.

Í öðru lagi, í 2. tölulið, er flutt tillaga um að eftir að hrein eign einstaklinga eða hjóna eða samskattaðra aðila er komin yfir tiltölulega rúm mörk þá skerðist höfuðstólslækkun lána þeirra um krónu fyrir krónu um eignamörkin þar fyrir ofan. Þetta eru nokkuð rýmri eignamörk en voru í breytingartillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, má þá líta á sem varatillögu. En það gefur enn færi á því að afstýra því sem ella gerist, að stóreignafólk í þessu landi, jafnvel fólk sem á hundruð milljóna í skuldlausa hreina eign, fjármunaeign eða annað slíkt, fái til viðbótar þeim auði peninga úr ríkissjóði til þess að lækka áhvílandi veðskuldir á íbúðarhúsi sínu. Það liggur fyrir í gögnum, m.a. frá ríkisskattstjóraembættinu sem efnahags- og viðskiptanefnd aflaði, að það mun gerast að óbreyttu.

Ætli við getum þá ekki orðið sæmilega sammála um það að einstaklingur sem á hreina eign upp á 35 millj. kr. sé nokkuð vel settur þó að hann skuldi lítilræði í húsinu sínu, eða hjón og samskattaðir aðilar með hreina eign upp á 50 milljónir.

Í þriðja lagi er lagt til að nýr kafli komi inn í lögin sem taki inn heimildir til handa ríkissjóði að efna samkomulag við lífeyrissjóðina um að svonefndur lánsveðshópur fái nú loksins og seint um síðir einhverja úrlausn sinna mála. Eins og kunnugt er náðist samkomulag að lokum við lífeyrissjóðina á útmánuðum 2013 um að þeir tækju nokkurn þátt í kostnaði við að færa niður lán á yfirveðsettum eignum þeirra sem höfðu keypt íbúð, oftast með lán frá lífeyrissjóðum, og fengið að hluta til lánað veð í eignum þriðja aðila. Það liggja fyrir gögn um að yfirveðsetning þessara aðila margra hverra er upp á 140–150% af verðmæti íbúðarinnar eða eignarinnar sem þeir búa í. Þannig að lán sem nemur 30–40% af verðmæti þeirrar íbúðar hvíli á annarri eign.

Augljóslega mun það sem þessir hópar fá út úr hinni almennu aðgerð sem hér er rætt um verða til mikilla muna lægra í mörgum tilvikum heldur en þessi hópur hefði fengið ef hann hefði fengið úrlausn sinna mála til dæmis í gegnum svonefnda 110%-leið. Þó að menn fái einhver hundruð þúsund eða 1, 2, 3 milljónir út úr þessari aðgerð mun stór hluti eða talsverður hluti þessara heimila sitja áfram eftir í mjög erfiðri stöðu, yfirveðsettur og áfram í þeim vanda að lán þeirra hvíla á að hluta til á eignum þriðja aðila sem lenda í vanda ef vanskil verða o.s.frv.

Auðvitað mætti útfæra þetta með tvennum hætti. Annars vegar mætti taka lánsveðshópinn og vinna úr málum hans sjálfstætt og á undan þessari aðgerð, en það mætti líka mjög auðveldlega skoða stöðu þeirra sem væru með lánsveð og sætu enn eftir yfirveðsettir eftir að þessi höfuðstólslækkun samkvæmt frumvarpinu hefði farið í gegn. Hvort tveggja væri tiltölulega einfalt í framkvæmd og þyrfti væntanlega ekkert annað til en að breytt yrði forritinu margfræga um það hvernig menn sækja um í sms-i, eða hvernig það nú var sem menn áttu að panta pítsuna, og þar væri sérstakt box þar sem menn gætu hakað við að þeir væru með lánað veð frá þriðja aðila og þyrftu að fá umsókn sína meðhöndlaða í samræmi við það. Þar með mundu þær nokkur þúsund fjölskyldur sem eru í þessari stöðu, langoftast ungt fólk sem keypti á árunum eftir aldamótin og fram að hruni, loksins fá einhverja úrlausn.

Fallist stjórnarmeirihlutinn ekki á þetta þá tel ég að við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til þess að reyna að vinna úr málum þessa hóps með því að flytja hér frumvarp og halda málinu á dagskrá, m.a. í efnahags- og viðskiptanefnd, og við neyðumst því til að vísa ábyrgðinni annað ef ekki verður fallist á að seint og um síðir fái hópurinn ferð með í þessari umferð.

Í b- og c-lið 3. töluliðar breytingartillagnanna er sett inn heimild til ríkissjóðs til að verja annars vegar allt að 3 milljörðum kr. til hækkunar húsaleigubóta á síðari helmingi ársins 2014 og ráðherra mælt fyrir um að gera samkomulag við sveitarfélögin um frágang þess máls. Kostnaður sem hlytist af þessari hækkun húsaleigubóta dragist frá áður en til útreiknings leiðréttingarvísitölu kæmi samkvæmt þeim ákvæðum frumvarpsins.

Í c-lið segir að ríkissjóði sé heimilt að verja allt að 1,5 milljörðum kr. til hækkunar vaxtabóta á síðari helmingi ársins 2014 og mundi ráðherra leggja tillögur um útfærslu hækkunarinnar fyrir Alþingi í byrjun þings í september. Kostnaðurinn þar dragist sömuleiðis frá áður en leiðréttingarvísitalan yrði fundin út.

Ljóst er að féllust menn til að mynda á þá skerðingu niðurfærsluréttarins sem leiddi af eignamörkum mundi sparast fé sem gengi þá ekki til efnaðasta fólksins í landinu og þá fjármuni mætti nota til að bæði vinna úr málum lánsveðshópsins og hækka húsaleigubætur og greiða vaxtabætur. Ef það dygði ekki til, það svigrúm sem þannig myndaðist, mundi það jafnast út yfir aðgerðina í heild og leiða til eitthvað lægri leiðréttingarvísitölu en ella.

Hér er ekki verið að tala um að auka útgjöldin vegna aðgerðarinnar, þau eru ærið nóg, 20 milljarðar af skattfé, heldur að veita nokkra úrlausn þeim hópum, þ.e. leigjendum og tekjulágum fjölskyldum sem helst njóta góðs af vaxtabótum, sem enga úrlausn fá í þessu frumvarpi og eru skildir eftir, sem og lánsveðshópurinn.

Herra forseti. Að lokum er 4. tillöguliður breytingartillagnanna afar mikilvægur að mínu mati vegna þess að fyrirsögn frumvarpsins er villandi eins og hún stendur óbreytt. Frumvarpið heitir Frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, en það er engin sérstök leiðrétting innbyggð í frumvarpið, það er engin viðmiðun. Forsendubresturinn er ekki skilgreindur lengur. Það er engin viðmiðun við verðbólgumarkmið Seðlabankans eða eitt eða neitt, heldur er það reglugerðarákvæði í haust sem á að ákvarða leiðréttingarvísitöluna. Þess vegna er eðlilegra að kalla frumvarpið, eins og lagt er til í 4. tölulið breytingartillagnanna, Frumvarp til laga um niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignaveðlána tiltekinna heimila með skattfé. Það er samnefni og væri í öllu falli til bóta þótt ekkert annað gerðist en að meiri hlutinn féllist að minnsta kosti á að frumvarpið beri ekki rétt nafn, það er villandi, og lágmark er að breyta fyrirsögnum.