143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er líkt og áður; breytingartillögurnar eru ágætar og við ætlum að lýsa afstöðu okkar til þeirra með hjásetu. Þær breyta því ekki að þetta mál er í heild sinni slæmt og mjög óskynsamlegt. Þetta lýsir einfaldlega, í okkar huga, þingflokks Bjartrar framtíðar, bruðli. Þetta er bruðl. Þetta er óréttlátt. Þetta er vond hagstjórn. Þetta er vond meðferð á opinberu fé.

Umræðan er oft á þann veg, það er teiknað þannig upp, að þeir sem séu á móti þessu séu á móti því að gera eitthvað fyrir heimilin. Við í þingflokki Bjartrar framtíðar segjum: Þetta er ekki gott fyrir heimilin. Svona hjálpar maður heimilunum ekki. Þetta er ósjálfbært. Hægt væri að nota þetta fé til að hjálpa heimilunum virkilega nú og um ókomna framtíð. Við höfum bent á þær leiðir, þingflokkur Bjartrar framtíðar, en á það hefur því miður ekki verið hlustað.