143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er einmitt verið að ákveða hverjir fá og hverjir ekki. Það er verið að ákveða að leigjendur, til dæmis þeir sem hafa búið við verðtryggða húsaleigu, sem tók fullum hækkunum í verðbólguskotinu, fái ekki. Það er tækifæri hér til að bæta örlítið úr því með því að hækka húsaleigubætur þó að seint sé. Það er verið að ákveða að þeir sem völdu sér að búa í húsnæðissamvinnufélögum, í búseturéttarfyrirkomulagi, fái ekki. Það er tækifæri til að laga það hér. Það er verið að ákveða, hæstv. forsætisráðherra, herra forseti, að lánsveðshópurinn fái ekki.

Hæstv. forsætisráðherra skaut sig illilega í fótinn þegar hann sagði að þetta snerist um að ákveða það ekki hverjir fengju, hér ættu bara allir að fá. Það er nefnilega einmitt ekki það sem gerist, hæstv. forsætisráðherra. Það verða mjög fjölmennir hópar sem hafa orðið fyrir þungum búsifjum af hruninu og verðbólguskotinu skildir algerlega óbættir út undan í þessari aðgerð. Það er nú bara þannig.