143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Leiðrétting og almenn aðgerð hlýtur að miðast við að leiðrétta tjón sem er skilgreint. Það er ekki skilgreint í þessu frumvarpi. Þegar Hagstofan kemur með niðurstöður sínar í haust verða engir peningar til ráðstöfunar til að taka á vandanum sem hún mun sýna fram á að er óleystur, eða til að taka á misgenginu sem hún mun sýna að er ekki bætt með þessari aðgerð. Það verða engir peningar til að leiðrétta það.

Hæstv. forsætisráðherra getur síðan ekki reynt að réttlæta mismuninn gagnvart leigjendum og húsnæðissamvinnufélögum með því að vísa til alls óskyldra breytinga sem eru að verða á húsnæðiskerfinu. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur skýrt tekið fram að það er engra nýrra peninga að vænta inn í það kerfi. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að bæta leigjendum og búseturéttarhöfum með sambærilegum hætti og þeim sem eru í eigin húsnæði þarf gríðarlega fjármuni. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvar á að finna þá fjármuni? Ef hann ætlar að klípa þá af núverandi fjárveitingum til félagslegs húsnæðis (Forseti hringir.) verður ekki neitt um neitt í þeim uppbyggingaráformum sem félagsmálaráðherra hefur kynnt.