143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er dapurlegt að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki hafa verið reiðubúinn að samþykkja breytingartillögur sem hefðu gert þessar ívilnunarráðstafanir til skuldugra heimila félagslega ásættanlegri og yfirleitt ásættanlegar því það eru þær ekki eins og þær standa. Af þeim sökum get ég ekki stutt þetta frumvarp og mun sitja hjá. En eitt vil ég fullvissa ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann um: Þessu máli er ekki lokið. Við eigum eftir að ræða málefni leigjenda og kjör þeirra, Búseta, lánsveðshópinn. Ég hef hins vegar gert grein fyrir því í umræðu í þingsalnum að ég er því mjög fylgjandi að grípa til ráðstafana til að færa niður höfuðstól húsnæðislána skuldugra fjölskyldna með því að sækja skattfé til oftökuaðilanna sjálfra, fjármálafyrirtækjanna og kröfuhafa sem réttilega eru kallaðir hrægammar, því þeir hafa keypt og komist yfir kröfur sínar í þrotabú í gróðaskyni, til að græða (Forseti hringir.) og gróðans aðeins vegna.

Síðan, hæstv. forseti, er ég svolítið (Forseti hringir.) þreyttur á þeim söng sem er kyrjaður í tengslum við þessar ráðstafanir og í tengslum við alla kjarasamninga (Forseti hringir.) á undanförnum árum og undanförnum áratugum (Forseti hringir.) að ef einhverjar ívilnanir koma til almennings, (Forseti hringir.) til launafólks (Forseti hringir.) og mjög (Forseti hringir.) skuldugra heimila, sem hugsanlega sjá fram á að geta (Forseti hringir.) tekið þátt í almennri neyslu, fari hér allt (Forseti hringir.) á hliðina. Ég hef heyrt skemmtilegri söngva (Forseti hringir.) kyrjaða. (Gripið fram í.)