143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

útlendingar.

249. mál
[21:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri þegar afgreidd eru þessi mikilvægu lög um málefni útlendinga að þakka nefndinni sem fjallaði um málið og þeim þingmönnum sem þar sátu og þeirri góðu sátt sem náðst hefur um þetta risa-, risastóra mál. Það skiptir miklu máli í brýnum verkefnum sem við erum að fást við þessa dagana og tengjast innflytjendum, hælisleitendum og málefnum sem við viljum svo gjarnan gera betur í og vanda okkur sérstaklega vel.

Ég vil þakka formanni nefndarinnar og nefndarmönnum öllum og ég vil líka nota tækifærið og þakka starfsmönnum innanríkisráðuneytisins sem hafa lagt á sig mikla vinnu og svo þverpólitísku nefndinni sem hv. þm. Óttarr Proppé mun leiða. Í sameiningu mun okkur vonandi takast að vinna þessi mál vel, tryggja hraðari málsmeðferð og aukin gæði málsmeðferðarinnar. Ég vil því fyrst og síðast þakka þingheimi fyrir að hafa afgreitt þetta stóra mál.