143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

227. mál
[21:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum setningum að vekja athygli á því að hér er á ferðinni mál þar sem svo háttar til að frumvarp til innleiðingar á þeim tilskipunum sem hér er um að ræða kom til meðferðar þingsins strax í haust, en þingsályktunartillagan kom ekki fyrr en á vorþingi nokkru seinna. Þetta er ekki í samræmi við reglur um þinglega meðferð EES-mála.

Við vekjum athygli á því í nefndarálitinu sem ég skrifa undir og fellst á að hinum stjórnskipulega fyrirvara sé aflétt. En eins og formaður nefndarinnar gat um þá standa að þessu nefndaráliti fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Bjartrar framtíðar.