143. löggjafarþing — 121. fundur,  16. maí 2014.

þingfrestun.

[22:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja forseta bestu þakkir fyrir samstarfið í vetur og hlý orð í okkar garð. Okkur tókst að standa við starfsáætlun þingsins, það er raunar mjög mikilvægt. Þetta tókst vegna sameiginlegs átaks okkar allra. Hitt er hins vegar ljóður á vinnulaginu að of mikill hraði er á síðustu metrunum, enda þingmálafjöldinn mikill og mörg mál mjög seint fram komin. Fyrir bragðið er hætta á fljótaskrift og þá einnig hinu sem er verra, að þingmenn geti ekki gert nægilega vel grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þetta vinnulag þurfum við að laga saman. Ég veit að forseti hefur gert sitt besta til að bæta úr þessum ágöllum og til þess mun hann áfram hafa fullan stuðning okkar í stjórnarandstöðunni.

Ég vil færa forseta og fjölskyldu hans bestu kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna. Starfsfólki Alþingis vil ég einnig þakka afar góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð og líkt og forseti vona ég að við megum öll hittast heil á nýju þingi.

Ég bið þingmenn að taka undir góða kveðju til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]