143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

dagskrá fundarins.

[15:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek undir með öðrum þingflokksformönnum sem hér hafa tekið til máls. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta allt ákaflega furðulegt. Ég fæ símtal frá hæstv. innanríkisráðherra um að til standi að hafa þingfund. Ég hef ekkert heyrt frá þinginu, fékk bara eitthvert SMS um að til stæði að hafa þingfund á þessum tíma. Hvorki hefur verið boðaður fundur í forsætisnefnd, þar sem ég er áheyrnarfulltrúi, né hjá þingflokksformönnum. Mér finnst þetta skrýtin vinnubrögð.

Ég hefði viljað fá tækifæri, fyrst við komum hér saman, til að beina fyrirspurnum og heyra fyrirspurnir til ráðherra. Eins og hér hefur komið fram hefur ýmislegt gerst síðan við hittumst síðast. Ég er ekki hrifin af því að hafa svona langt hlé og fagna því að við skulum koma saman en á sama tíma harma ég að við fáum ekki að nýta þetta tækifæri til að hafa alvöruaðhald með framkvæmdarvaldinu.