143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

lekinn í innanríkisráðuneytinu.

[15:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka upp undir þessum dagskrárlið mál sem ég hef nokkrum sinnum rætt einmitt undir þessum dagskrárlið, þ.e. svar við fyrirspurn frá okkur Merði Árnasyni um rannsókn á samantekt sem fór út úr innanríkisráðuneytinu.

Í dag heyrist í fréttum að í héraðsdómi og síðan í úrskurði Hæstaréttar sé rökstuddur grunur um að upplýsingarnar hafi komið frá starfsmanni í innanríkisráðuneytinu. Það sýnir að svarið sem barst klukkan tíu síðasta kvöldið sem við vorum hér áður en þingi var slitið var mjög ófullkomið. Það kom hins vegar fram í svarinu, eins og oft hefur komið fram í máli hæstv. innanríkisráðherra, að hún gæti ekki tjáð sig um þetta mál fyrr en rannsókn væri lokið.

Nú er henni lokið og ég held að hæstv. ráðherra verði að svara Alþingi því hvort hann geti staðfest að hvorki hún né pólitískir starfsmenn hennar séu þessi B sem er getið um í úrskurði Hæstaréttar, þ.e. að embættismenn hafi ekki látið þetta frá sér fara. Getur ráðherrann staðfest það? Ég held að hún skuldi þinginu það (Forseti hringir.) að svara okkur hreint út.