143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

lekinn í innanríkisráðuneytinu.

[15:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ég veit ekki hvernig það er til komið, ég veit ekki hversu oft ég á að segja það. Ég þekki ekki þessa rannsókn, mér er ekki kunnugt um hana og það væri óeðlilegt að ég þekkti einstaka þætti hennar.

Það kemur hins vegar fram í dómi Hæstaréttar í dag að lögreglan finni ekki neitt sem renni stoðum undir það að trúnaðargögn hafi farið frá ráðuneytinu. Ég get ekki upplýst þingheim um rannsókn sem er í gangi og hef ekki frekari upplýsingar um hana en þingheimur sjálfur.

Innanríkisráðuneytið og starfsmenn þess sendu frá sér tilkynningu áðan, ég bið menn að gæta hófs í því að setja það í annarlegt samhengi að starfsmenn ráðuneytisins eigi samtöl við fjölmiðla. Það gera þeir allan daginn í upplýsingaskyni. Að dylgja um að það feli í sér saknæmt athæfi er að mínu mati mjög óeðlilegt.

Ég get ekki (Forseti hringir.) upplýst þingið um málið. Ég hef ekki frekari upplýsingar um rannsókn málsins en aðrir þingmenn. (Forseti hringir.) Svo verður niðurstaða lögreglu og ríkissaksóknara að koma í ljós. (Forseti hringir.) Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að þá get ég tjáð mig efnislega um málið og þá getur ráðuneytið tekið á því í samræmi við þá niðurstöðu. (Forseti hringir.) En engin niðurstaða fékkst í málið í dag.