143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að ég er sammála því sem hæstv. innanríkisráðherra segir um að betri bragur sé á því að mál af þessum toga komi fyrir Alþingi frekar en að þau séu afgreidd með bráðabirgðalögum. Ég held að tíðarandinn sé líka sá og aðstæður allar. Það er auðvelt að kalla saman þing með skömmum fyrirvara eins og þetta dæmi sýnir okkur og betri bragur á því. Það gefur líka aðilum máls tækifæri til að tjá sig við þingnefnd og koma sjónarmiðum á framfæri sem ella væri ekki hægt, þ.e. ef gefin væru út bráðabirgðalög. Ég fagna því sérstaklega.

Það er tvennt sem ég vildi samt nefna í framhaldi af framsöguræðu hæstv. ráðherra, annað snýr að formi og hitt að innihaldi. Hvað formið varðar er hér farið inn í vinnudeilur, um er að ræða íhlutun í deilu um kaup og kjör á vinnumarkaði. Þetta er vinnuréttarmál. Þetta er lagasetning á sviði vinnuréttar og vinnumarkaðsmála. Sú hefð eða venja hefur skapast, ég veit ekki hvað ég á að kalla það, á undanförnum árum að fagráðherra málaflokks á því sviði sem vinnudeilan er flytur frumvarp. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherrann telji þetta eðlilegt og hvort hann telji eðlilegt að umhverfis- og samgöngunefnd, sem ekki hefur sérstaklega með vinnuréttarmál að gera, fjalli um mál af þessum toga en ekki velferðarnefnd sem á að vera með sérþekkingu á sviði vinnuréttar.

Ég vil líka spyrja um innihaldið, hvort ráðherrann sé ekki þeirrar skoðunar að mikilvægt sé við lagasetningu af þessum toga að fylgt sé ákvæðum stjórnsýslulaga um rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og annað slíkt, hvort ráðherrann telji að að því hafi verið gætt. Hér er til dæmis vitnað í dóm Hæstaréttar í máli nr. 167/2002, þar sem Hæstiréttur réttlætir inngrip í kjaradeilu en segir samt að slíkar aðgerðir megi þó ekki ganga lengra en þörf krefji. Hefur verið rannsakað nákvæmlega hvert hið þjóðhagslega tjón er af aðgerðunum sem eru yfirvofandi, (Forseti hringir.) sem eru ekki skollnar á af fullum þunga, og var þessum grundvallaratriðum sinnt áður en frumvarpið var samið og lagt hér fram?