143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það þurfi ekki að lengja þetta, ég tek undir það sem hv. þingmaður nefnir varðandi matið, að í hverju tilviki þurfi að taka afstöðu til þess. Það er einmitt það sem við erum að gera og ég fór ítarlega yfir það í ræðu minni hér áðan.

Ég varpaði því líka fram, og mér finnst það sem hv. þingmaður nefnir speglast vel í því, og nefndi mjög skýrt að ég teldi að allt þingið þyrfti að koma að þessu. Ég held að við þurfum til dæmis að ræða hvort fagráðherrar eiga að fjalla beint um mál er heyra undir þá eða hvort þetta eigi að vera á verksviði þess ráðherra sem fer með vinnumarkaðsmál. Ég er reiðubúin að ræða það og skoða þó að það geti ekki beint haft áhrif á málið núna. Ég get líka upplýst þingheim um að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sem ber ábyrgð á þeim málum, hefur sannarlega ekki farið varhluta af þessum aðgerðum. Haft hefur verið fullt samráð við hana allan tímann og mætt jafnmikið á henni í þessu máli og þeirri sem hér stendur og ríkisstjórninni allri saman. En ég er algjörlega reiðubúin að ræða þær breytingar sem þingmaðurinn nefnir.