143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú kemur hæstv. innanríkisráðherra í þriðja sinn með lög á grundvallarmannréttindi. Þetta er á örfáum mánuðum oftar en á heilu kjörtímabilunum áður og fyrr.

Ég spyr þess vegna hæstv. innanríkisráðherra hvort hún geti nú fallist á að það hafi verið alvarleg mistök að fara fram með lögin á hásetana á Herjólfi, á þá óverulegu efnahagslegu hagsmuni sem snerust um 20 millj. kr. kjaradeilu sem hafa skapað erfiðleika í kjarasamningum, væntingar á vinnumarkaði um inngrip ríkisvaldsins í tíma og ótíma í kjarasamninga með lagasetningu og valdið miklu meiri skaða en leystur var með þeim.

Getur ráðherrann fallist á að lögin á Herjólf hafi verið fljótræði og hafi skapað ríkisstjórninni þetta sjálfskaparvíti sem við höfum verið með í fanginu í vor sem eru alvarlegar deilur í kjarasamningum á sviði samgöngumála?

Ég get sagt um þetta mál að ég mun ekki hafa ágreining uppi um það við hæstv. ráðherra að að þessu sinni eru verulegir efnahagslegir hagsmunir undir. Það er deginum ljósara þó að rökstyðja megi það betur eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson bendir á. En það er alveg jafn dagljóst að það voru engir stórfelldir efnahagslegir hagsmunir fyrir því að beita hásetana á Herjólfi því ofbeldi sem þeir voru beittir fyrr í vetur og að það hafi skapað mjög óheppilegar væntingar atvinnurekenda um að þeir þyrftu ekki að ganga eins langt og þyrfti til að loka kjarasamningum vegna þess að ef menn næðu ekki saman mundi Alþingi koma saman og afgreiða fyrir þá lög sem losuðu þá við óþægindi sem af kjaradeilum kynni að stafa.

Getur hæstv. innanríkisráðherra, í ljósi þess sem gerst hefur síðan lögin voru sett á Herjólf, viðurkennt að sú lagasetning hafi verið mistök hvað sem þessu frumvarpi líður?