143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og við höfum rætt hér um og ég hef ítrekað farið yfir eru þessi mál öll matskennd. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um túlkun hans á aðgerðum þegar upp kom sú staða er tengdist Herjólfi. Ég efast um að þeir sem nýttu sér þær samgöngur og nota þær samgöngur og líta á þær sem helsta öryggistæki sitt og tilverugrundvöll í búsetu á ákveðnum stað geti tekið undir með honum í því.

Það er hins vegar alveg sama staða í því máli og er í svo mörgum öðrum sem þessu tengjast, hún er matskennd. Ég skil alveg að stjórnarandstöðuþingmaður eins og hv. þm. Helgi Hjörvar telji freistandi að raða hér upp einhverju samspili þátta og tala um vegferð sem hann finnur eitthvert upphaf og endi á en minni hins vegar sama hv. þingmann á að ríkisstjórn hans setti lög á sömu starfsstétt, þ.e. flugvirkja, árið 2010. Ég man ekki til þess að menn hafi í aðdraganda þess blandað sér inn í Herjólfsdeilu þannig að það að segja núna að þetta sé til komið vegna Herjólfsdeilunnar eða sé upphaf að einhverri atburðarás er bara hundalógík og hefur ekkert með málið að gera. Ég skil vel að það hljómi vel í pólitískri uppstillingu en er auðvitað algjörlega fjarstæðukennt.

Við erum hér að tala um gríðarlega alvarleg mál og ég spyr hv. þingmann á móti: Ef hann væri í ríkisstjórn og stæði frammi fyrir því að grundvallaratvinnugreinar í landinu gætu verið að horfa upp á hluti sem tæki langan tíma að bæta, að fullt af launþegum í landinu mundi jafnvel missa vinnuna og lífsviðurværi sitt í tengslum við slíkt, í ferðaþjónustu, í sjávarútvegi og víðar, mundi hann sitja hjá? Mundi hann bara bíða rólegur og sitja hjá? Á sama tíma og báðir deiluaðilar segja að ekkert sé að gerast og engin von á samningi, á sama tíma og ríkissáttasemjari segir að það sé fullreynt, mundi hv. þingmaður bara sitja hjá og bíða eða hvað mundi hann gera? Mundi hann kannski gera nákvæmlega það sama og hann gerði árið 2010, og talaði þá ekki um pólitíska atburðarás sem yrði að stöðva, sem var að samþykkja lög til að stöðva (Forseti hringir.) verkfallsaðgerðir flugvirkja?