143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í andsvari mínu tel ég að að þessu sinni séu miklir efnahagslegir hagsmunir í húfi og full ástæða til að skoða röksemdir ríkisstjórnarinnar af mikilli alvöru í því ljósi. Ráðherranum verður tíðrætt um að þetta séu henni þungbær skref og að þetta séu matskenndar ákvarðanir. Það er rétt, en ráðherrann hefur metið á þremur mánuðum þrisvar sinnum ástæðu til að stíga þessi þungbæru skref hingað inn í þingið, oftar en nokkur fagráðherra í mörg ár. Það er eðlilegt að spurt sé að því hvers vegna einn fagráðherra þurfi aftur og aftur að ganga á grundvallarmannréttindi þó að það sé alveg ljóst að það kann að þurfa að gera endrum og sinnum. Það geta komið upp svo alvarlegar aðstæður að beita verður þessu neyðarúrræði. Það hljóta samt að vakna margar spurningar þegar það er gert í hverjum mánuðinum á fætur öðrum, í hverju málinu á fætur öðru, af sama ráðherra á sama málasviði. Það er engin hundalógík í því að spyrja þann fagráðherra af hverju hann þarf að koma miklu oftar en nokkur ráðherra hefur þurft að gera hér síðasta áratuginn upp með þessi frumvörp sem ráðherrann sjálfur segir að sé svo óskaplega þungbært, að meta alltaf með sama hætti þannig að það þurfi að setja lög en aldrei að láta reyna á það.

Hæstv. ráðherra hreyfði hér hugmyndunum um að auka heimildir ríkissáttasemjara. Mér finnast það athyglisverðar ábendingar og fagna því að það að hann komi þráfaldlega upp sjálfur með þessi frumvörp, mánuð eftir mánuð, sé farið að vekja spurningar hjá ráðherranum sjálfum um að grípa hefði þurft til einhverra ráðstafana, einhverra breytinga á fyrirkomulaginu, til að við þurfum ekki að búa við þetta ástand áfram. Þá legg ég áherslu á það að slíkar breytingar verði gerðar í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins, í samráði og samkomulagi, ekki bara á milli (Forseti hringir.) ráðherra heldur líka við verkalýðshreyfinguna en ekki einhliða lagasetning í þágu atvinnurekenda eins og maður hefur ástæðu til að hafa áhyggjur af.