143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér er sagt, við höfum ekki fengið svör við því af hverju þessi leið er farin. Við höfum í fyrsta lagi ekki fengið svör við því hvað kallar á það að forseti hafi þingfund án þess að halda fund með þingflokksformönnum og án þess að halda fund í forsætisnefnd þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um það í þingskapalögum. Við höfum engan rökstuðning fengið fyrir þessu verklagi þar sem verið er að víkja frá ramma sem við setjum okkur sjálf um okkar verk. Í besta falli þyrfti að útskýra það fyrir okkur hver skilningur forseta er á því hvernig þessar reglur beri að túlka.

Forseti verður einfaldlega að svara okkur í þessu efni. Það gengur ekki að við umgöngumst þingsköpin af slíkri léttúð að við teljum að við getum gert þetta bara stundum og stundum ekki. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli, þetta er mjög stórt mál. (Forseti hringir.) Hér er stjórnarandstaðan að greiða fyrir afbrigðum o.s.frv., þannig að ég skil ekki hvað veldur því að (Forseti hringir.) forseti ákveður að hunsa samráð við stjórnarandstöðuna í þessu efni. Það er óskiljanlegt.