143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Forseti. Þetta er dálítið eins og að endurlifa sömu málin og sömu dagana. Hér er verið að ræða enn ein lögin á verkfallsaðgerðir starfsmanna í samgöngugeiranum. Við höfum þegar rætt fyrr í vetur, í apríl, um lagasetningu á verkfallsaðgerðir starfsmanna Herjólfs og síðan ræddum við um lagasetningu á verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna hjá Icelandair. Nú ræðum við lagasetningu um frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

Þetta er þriðja skiptið á þremur mánuðum. Góðar og gildar spurningar hafa komið hér upp, ekki síst af því að sú umræða sem hefur farið fram um fyrri tvö málin snúast ekki síst um vinnuréttinn og mannréttindi og ég vænti þess að það eigi líka við um þetta mál. Þau sjónarmið voru undirstrikuð í nefndarálitum minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar í fyrri málunum, þ.e. að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það þarf mjög þung rök til að grípa inn í hann með lagasetningu og það á að vera á ábyrgð samningsaðila að ná samningum.

Ég tek undir það með hæstv. innanríkisráðherra að hins vegar er eðlilegt skoða þetta umhverfi í heild, til að mynda það svigrúm sem ríkissáttasemjari hefur á hverjum tíma til að fresta verkfallsaðgerðum þannig að hann geti látið fullreyna á samninga. Það liggur fyrir að það umhverfi er enn þá óbreytt. Því hljótum við enn og aftur að vera sett í þá aðstöðu á þinginu að meta það sem kalla má, eins og kemur fram í athugasemdum frumvarpsins, að einungis sé „heimilt að takmarka réttinn með lögum ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum og til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi“.

Það er þetta sem við ræddum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í fyrri málunum tveimur og þetta er væntanlega það sem við munum ræða hér á eftir og því eru fullkomlega gild sjónarmið sem hér koma fram um að þetta ætti fremur að heyra undir þá nefnd sem fer með vinnuréttarmál og aðstæður á vinnumarkaði. Við erum að ræða grundvallarprinsipp á vinnumarkaði. Þar er eðlilegt að ræða heildarmyndina, þ.e. hvort eðlilegt sé að fara hina norrænu leið þar sem ríkissáttasemjarar hafa mun víðtækari heimildir, m.a. til þess að fresta aðgerðum tímabundið á meðan deilur standa yfir, og telja þá að unnt sé að ná samningum með öðrum hætti. Við höfum heldur ekki jafn mörg dæmi frá Norðurlöndum og hér, a.m.k. ekki að undanförnu. Þetta var orðið fátítt en virðist því miður vera tíðkað nokkuð núna.

Síðan erum við með allt aðrar aðstæður uppi sunnar í Evrópu þar sem verkföll eru mun algengari og ekki þykir ástæða til að bregðast við fyrr en verulega er farið að reyna á vilja samningsaðila. Þá nægir að fara til Frakklands og Þýskalands. Ég varð vitni að því um daginn þar sem ég var stödd á ferð erlendis að allar flugferðir Lufthansa voru felldar niður í tveggja daga vinnustöðvun og löggjafinn aðhafðist ekki.

Það er alveg augljóst að Alþingi Íslendinga þarf að taka þessi mál til heildstæðrar skoðunar. Við getum ekki mætt hér á mánaðarfresti til að setja lög á verkföll sem eru hluti af sjálfsögðum réttindum manna til að berjast fyrir bættum kjörum. Þessi staða gengur ekki lengur og það verður að taka þetta mál til heildstæðrar umræðu. Við höfum ekki gefið okkur tíma í það hér, kannski eðlilega af því að hér er alltaf verið að bregðast við aðstæðum sem eru uppi, en það er augljóst að svona gengur þetta ekki. Þetta er algjörlega óboðlegt.

Ég hefði líka haft áhuga á að ráðherra vinnumarkaðsmála, hæstv. velferðarráðherra, sæti undir þessari umræðu. Ég hefði viljað heyra sjónarmið hennar og afstöðu til þeirra mála og ég vildi óska að hún kæmi í ræðu. Ef við erum að horfa upp á að þetta sé að verða of algengt — allir sammála um það, hæstv. innanríkisráðherra sagði: Það er algjörlega ekki hægt að við komum hér á mánaðarfresti til að setja lög — verðum við auðvitað að heyra frá ráðherra vinnumarkaðsmála um sýn hennar gagnvart þessu norræna módeli eða þeim aðferðum sem hafa verið notaðar annars staðar í Evrópu. Það væri mjög áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra vinnumarkaðsmála og hvort hún vilji — af því að hún gengur hér í salinn — fá aukið svigrúm til handa ríkissáttasemjara, hvort hún telji ásættanlegt að Alþingi afgreiði á þremur mánuðum þrenn lög á verkfallsaðgerðir sem eru hluti af mannréttindum og hluti af vinnuréttinum og hvort hún hafi látið fara fram úttekt á því hvernig brugðist er við verkfallsaðgerðum í ljósi þess að þetta er orðið svo algengt hér á landi.

Ég var að lýsa því hvernig ég fylgdist með niðurfellingu fjölda flugferða Lufthansa í tveggja daga verkfalli á dögunum og að þar hefði ekki verið brugðist við með lagasetningu. Við verðum að fá þetta heildstæða yfirlit, ekki bara um einhverjar flugsamgöngur heldur um verkfallsaðgerðir og vinnuréttinn almennt. Við getum ekki verið að ræða þessi mál hér alltaf í einhverri viðbragðsstöðu. Það gengur ekki lengur. Þegar lagasetning á verkföll er orðin jafn algeng og raun ber vitni verður að bregðast við með heildstæðri umræðu. Ég treysti á ráðherra. (Gripið fram í.) Já, þetta er ræða.

Ég treysti á að ráðherra vinnumarkaðsmála muni setja í gang einhverja vinnu í samráði við aðila vinnumarkaðarins og í samráði við stjórnmálaflokkana þar sem við munum fá einhverja slíka heildstæða sýn þannig að hægt sé að marka stefnu til framtíðar. Það er númer eitt, tvö og þrjú.

Athugasemdirnar með þessu frumvarpi eru mjög lítið breyttar frá frumvarpinu sem var afgreitt um lagasetningu á verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Það sem ég hefði viljað sjá hér og óskaði eftir þá er nánari greining. Hæstv. ráðherra fór vissulega yfir stóru línurnar í ræðu sinni áðan. Þær eru lagðar í athugasemdunum sem eru nánast orðrétt samhljóða athugasemdunum með frumvarpi til laga um frestun á verkfallsaðgerðum Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Ef við eigum að geta metið það af einhverju viti hvort hér sé um þjóðaröryggi eða almannaheill að ræða hljótum við að þurfa að meta hvort sú efnahagslega vá sem nú vofir yfir sé af slíkum toga að kalli á jafn drastíska lagasetningu og hér er lögð til. Það deilir enginn um það að þessar verkfallsaðgerðir hafa mjög mikil og víðtæk samfélagsleg áhrif. Við vitum líka, þó að það komi ekki fram í athugasemdunum, að Icelandair er ekki eina flugfélagið sem flýgur til og frá landinu. Við erum ekki að loka leiðunum til landsins. Hlutdeild Icelandair í fluginu er um 70%, eitthvað mismunandi á milli farþegaflutninga og vöruflutninga kom fram í ræðu ráðherra. Það þyrfti að rýna betur því að ljóst má vera að þetta eru miklir hagsmunir fyrir ferðaþjónustuna. Þetta eru miklir hagsmunir fyrir atvinnugreinina sjálfa sem núna virðist vera að festa sig í sessi sem mikilvægasta atvinnugrein landsins, a.m.k. um þessar mundir.

Hér hefur komið fram hverjar heildargjaldeyristekjur eru og áætlað heildartap en það sem skiptir líka máli er að setja þetta í samhengi: Erum við eingöngu að tala um efnahagslega þætti? Teljum við að flutningar til og frá landinu séu nægjanlega tryggðir í ljósi þess að þetta er ekki eina flugfélagið sem um ræðir? Hvernig nákvæmlega metum við vána í ljósi laga sem voru sett á verkfall sjómanna? Það stöðvaði gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið á þeim tíma og var þá stærsta uppspretta gjaldeyristekna fyrir íslenskt þjóðarbú en þau lög voru ekki sett fyrr en eftir sex vikur. Hér er allsherjarverkfall í raun ekki hafið. Hvernig nákvæmlega hyggjumst við meta þessa vá sem er ekki þegar orðin? Það er eiginlega það sem ég hefði viljað sjá nánari skilgreiningu á. Ég ítreka það sem ég sagði hér fyrir um mánuði þegar við ræddum verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Ég þykist vita að við munum fara yfir málið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég veit ekki hverja hv. formaður nefndarinnar hyggst kalla til fundarins en reikna með að það verði þeir aðilar sem við höfum rætt við áður við fyrri lagasetningar. Þá munum við vonandi fara nánar yfir þetta.

Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að hafa gefið merki um að hún hyggist koma í ræðu því að mér finnst mikilvægt að við sjáum sem fyrst einhver merki þess að við séum reiðubúin að skoða þessi mál í heildstæðu samhengi við alþjóðlega þróun á vinnumarkaði. Það er mjög alvarlegt að stíga með þessum hætti inn í verkfallsréttinn. Það er ekki ásættanlegt og við hljótum að velta fyrir okkur hvort við ætlum að festast í þessu fari eða hvort við ætlum að fara einhverjar aðrar leiðir og hvaða leiðir þá nákvæmlega, hvort kortlagning sé hafin á umhverfi vinnumarkaðsmála og hvert við viljum stefna í þessum efnum.