143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að veita sáttasemjara auknar heimildir til að grípa inn í deilur. Þess vegna spurði ég hv. þingmann — eðlilega, vegna þess að ég skildi ræðu hennar á þann veg að hún væri einnig að kalla eftir slíkri lagasetningu — hvort Vinstri hreyfingin – grænt framboð mundi styðja slíka lagasetningu. Slík lagasetning mun að sjálfsögðu á einhvern hátt takmarka vald aðila til að semja, það er þannig.

Aðstæður eru að sjálfsögðu aðrar og ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum að vega og meta hvert einasta tilvik. Hluti stjórnarandstöðunnar hefur bent á að óeðlilegt sé að verið sé að setja lög á vinnudeilur með svona stuttu millibili. Ég held að það skipti í sjálfu sér engu máli, þetta eru bara þær aðstæður sem eru uppi. Ég get samt ekki séð að aðstæður séu mjög frábrugðnar þeim aðstæðum sem uppi voru þegar síðasta ríkisstjórn setti lög á boðað verkfall flugvirkja. Sömu ríku almannahagsmunirnir voru þá undir. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ef þeir ríkisstjórnarflokkar sætu enn að völdum mundu þeir líka lýsa því yfir hér að það gengi ekki að loka samgöngum til og frá landinu á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni.

Þess vegna ætla ég líka að leyfa mér að segja að mér finnst orðræða stjórnarandstöðunnar á vissan hátt vera óábyrg. Ég vona svo sannarlega að allir þeir þingmenn sem stóðu að lagasetningunni 2010 sjái sóma sinn í því að styðja þau lög sem stendur til að setja hér í dag, að þeir séu samkvæmir sjálfum sér, ég held að það sé lykilatriði. Það er svo annað mál að við þurfum með einum eða öðrum hætti að ná upp sömu umræðunni og hefur verið í Skandinavíu (Forseti hringir.) þar sem ekki hefur verið jafn langt á milli aðila og raunin er hér.