143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var algjörlega skýrt í ræðu minni og andsvari, ég get þá ítrekað það, að ég sagðist vera reiðubúin að skoða þetta með opnum huga. Það þarf ekki að koma hv. þingmanni á óvart því að ég nefndi það raunar í síðasta skipti, og líklega í þarsíðasta skiptið líka sem við ræddum frestun á verkfallsaðgerðum, að mjög mikilvægt væri að skoða slíkar heimildir.

Ég lýsi að sjálfsögðu ekki yfir stuðningi við vinnu sem ekki er farin af stað, að sjálfsögðu ekki. Það felst í því stuðningur að segjast vera reiðubúin að skoða þau mál af alvöru og það hef ég ítrekað sagt þannig að hv. þingmaður þarf ekki að gera lítið úr því sjónarmiði. Ég fór vandlega yfir það af hverju ég teldi að það þyrfti að gera.

En hvað varðar hið fyrra mál sem hv. þingmaður nefndi og við fórum líka yfir hér síðast. Auðvitað voru þær aðstæður uppi að sú kjaradeila var úr takti við aðrar kjaradeilur, þ.e. þá voru flugvirkjar að gera aðrar kröfur en allir aðrir hópar. Þá er ég að vitna til lagasetningarinnar árið 2010, fyrir utan að það gerðist á sama tíma og flugsamgöngur voru einnig að lokast út af frægu eldgosi. (Gripið fram í.) Það voru því margir þættir sem spiluðu þar inn í.

Ástæða þess að þetta hefur verið nefnt hér er að þessi lagasetning er sú þriðja í röð nokkurra. Eðlilegt er að halda því til haga í ljósi þess að við hljótum að læra af reynslunni, ekki satt hv. þingmaður? Þegar við förum yfir þá upplifun að hafa ítrekað lent í slíkum aðstæðum þurfa allir aðilar að setjast niður og velta því fyrir sér hvort þetta sé virkilega rétta leiðin sem hér er verið að fara.