143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Mér finnst mjög áhugavert það sem hún nefnir í síðara andsvari sínu um stöðu ríkissáttasemjara. Það held ég að sé raunar lykillinn að því að þetta fyrirkomulag hefur gengið upp á Norðurlöndum, það er að ríkissáttasemjari er með talsvert sjálfstæði gagnvart hinu pólitíska valdi. Það er eitt af því sem þarf að skoða í samhengi.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir um að hún sé reiðubúin að fara í endurskoðun á þessum málum og muni hafa um það ríkt samráð. Ég vænti þess að við munum heyra meira af því, af því að eins og ég sagði í ræðu minni gengur þetta auðvitað ekki svona.